Ljósabasar Nýló
Verið hjartanlega velkomin á Ljósabasar Nýlistasafnsins 2021!
Þriðja árið í röð fagnar Nýlistasafnið styttingu dagsins með því að heiðra ljósið. Ljósabasar Nýló, sem fer fram dagana 1. til 19. desember, er fjáröflunarviðburður til styrktar Nýló þar sem tæplega 60 listamenn, allir félagar í Nýló, taka þátt. Í ár tekur Ljósabasarinn yfir sýningarrými safnsins í Marshallhúsinu, en hér á heimasíðunni er hægt að kynna sér listamennina sem taka þátt, skoða verk og kaupa.
Verkin á Ljósabasarnum í ár eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg, en þau tengjast öll ljósi í víðasta skilningi – ljós gerir heiminn sýnilegan og leiðir okkur þannig áfram á ýmsa áfangastaði, rótgróna og raunverulega, háfleyga og ljóðræna, uppspunna og afbakaða.